Ársfundur Norðurár bs 2019

Ársfundur Norðurár bs var haldinn í Miðgarði 5. júní 2019. Þar kom m.a. fram í skýrslu stjórnar að urðað magn á árinu var 21.745 tonn sem skiptist þannig að blandaður úrgangur frá fyrirtækjum var 9.403 tonn, frá sveitarfélögum 6.121 tonn, sláturúrgangur og frá vinnslu kjöts og fisks 3.604 tonn, grófur timburúrgangur 1.937 tonn og annar úrgangur 680 tonn. Frá síðasta ársfundi sem haldinn var 10. september 2018 hefur verið unnið að ýmsum verkefnum auk daglegs rekstrar urðunarstaðarins:

 

Gasbrennsla hófst á svæðinu og gengur ágætlega en dælt er upp 30-40 rúmmetrum af gasi á klukkustund og því brennt. Ekki liggur fyrir hvort gasið verði nýtanlegt en litið er á núverandi meðhöndlun sem reynslutíma á hve mikið magn af gasi næst úr svæðinu. Ákvörðun um nýtingu á gasinu verði ekki tekin fyrr en reynsla og upplýsingar hafa safnast um afkastagetu svæðisins.

Unnið hefur verið að því að endurnýja stafsleyfi fyrir urðunarstaðinn þar sem heimilað magn til urðunar verði hækkað úr 21 þús. tonnum/ár í 30 þús. tonn/ár.

 

Gerður var viðauki við leigusamning um land vegna afsetningar malarefnis úr sorpgryfju og unnið er að heildarendurskoðun á leigusamningnum vegna breytinga í starfsleyfi. Fram kom að öll samskipti við landeigendur eru með miklum ágætum og samstarf þeirra og starfsmanna hafi gengið vel.

 

Þríhliða samningur var gerður milli Norðurár bs. og Sorpeyðingar Vesturlands annarsvegar við Sorpstöð Suðurlands hinsvegar um tímabundna móttöku á 5.000 tonnum af úrgagni til urðunar á meðan fundnar verði lausnir á sorpeyðingu fyrir sveitarfélög á Suðurlandi. Samkvæmt honum hefur Sorpstöð Suðurlands heimild til að senda 2.500 tonn til urðunar í Stekkjarvík. Samningurinn gildir út árið 2019.

 

Gjaldskrá var tekin til endurskoðunar og ákveðið að hækkun á henni um 5-13% taki gildi í ársbyrjun 2020.

Fram kom í skýrslu stjórnar að fyrirséð er að mikið magn úrgangs verði urðað á næstu árum þótt nú sé unnið að að því af auknum krafti á vettvangi sveitarfélaga að draga úr úrgangsmyndun með aukinni endurvinnslu /endurnýtingu.

Það sé fyrirséð að bann verði sett við því innan skamms tíma að urða sjálfdauð húsdýr og að finna þurfi betri farveg fyrir lífrænan úrgang ss. dýraleifar og sláturúrgang því bann við urðun þessa úrgangsflokks sé handan við hornið.

Fram kom að urðunarskattur sem geti numið allt að 10 kr/kg sé til umræðu í stjórnkerfinu og spurning hvaða áhrif slík skattlagning hafi á meðhöndlun úrgangs og gjaldskrár sveitarfélaga eða verðlag í landinu yfirleitt.

 

Í stjórn Norðurár voru kosin:

Aðalmenn:                                         Varamenn:

Einar E. Einarsson                            Ingibjörg Huld Þórðardóttir

Sveinn Þ. Finster Úlfarsson     Stefán Gísli Haraldsson

Magnús B. Jónsson                           Zophonías Ari Lárusson .

 

Kristján Jónasson endurskoðandi hjá KPMG gerði grein fyrir ársreikningi félagsins. Þar kom  m.a. fram:

Rekstrartekjur félagsins voru 184.393 þús. og rekstrargjöld námu 11.415 þús. Fjármunagjöld voru 27.269 þús. og hagnaður ársins var því 45.709 þús. Laun og launatengd gjöld voru 37,6 millj. kr. á árinu 2018. Þar af námu laun og launatengd gjöld stjórnar 1,2 millj. kr. Á árinu störfuðu 3-4 starfsmenn hjá Norðurá í 3,6 ársverkum.

Bókfært verð fasteigna félagsins að Sölvabakka nam 119,5 millj. kr. í árslok 2018 en fasteignamat nam á sama

tíma 57,4 millj. kr. Þar af nam fasteignamat leigulóðar 37,5 millj. kr. í árslok en lóðin er ekki færð sérstaklega til

eignar í efnahagsreikningi. Brunabótamat eignanna nam 97,1 millj. kr. í árslok 2018. Tryggingaverðmæti

lausafjármuna nam 112 millj. kr. í árslok.

 

Á ársfundinum kynnti Gunnar Svavarsson verkfræðngur hjá Efla verkfræðistofu hver væri staða og horfur í endurnýjun starfsleyfis og fór jafnframt yfir stöðu úrgangsmála í landinu, skyldur sveitarfélaga og helstu lausnir sem hafa verið í úrgagnsmálum og endurvinnslu.

 

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV kynnti verkefni starfshóps um úrgangsmál á Norðurlandi sem unnið er að á vettvangi landshlutasamtakanna SSNV og Eyþings með stuðningi Sóknaráætlunar landshluta. Þar kom m.a. fram að samningur verði gerður við Efla verkfræðistofu um að vinna úttekt á þremur sviðsmyndum úrlausna í úrgagnsmálum.