Stofnupplýsingar

Samþykktir

fyrir Norðurá bs.

I. KAFLI Byggðasamlagið

1. gr.

Byggðasamlagið heitir Norðurá bs. kt. 560206-0620. Heimili þess og varnarþing er á Sauðárkróki. Byggðasamlagið starfar á grundvelli IX. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, „samvinna sveitarfélaga og samningar um starfrækslu verkefna“.

 

2. gr.

Tilgangur byggðasamlagsins er að annast móttöku og förgun úrgangs fyrir sveitarfélög og fyrirtæki á Norðurlandi.

 

3. gr.

Eigendur byggðasamlagsins eru eftirtalin sveitarfélög og skiptist hlutdeild þeirra eftir meðaltali íbúafjölda áranna 2006-2008 þegar stofnfé var lagt fram:

 

Sveitarfélag:

íbúatala

Stofnfé

Hlutfall

Sveitarfélagið Skagafjörður

4076

8.165.000

64,8%

Akrahreppur

217

435.000    

3,4%

Blönduósbær

899

1.798.000

14,3%

Sveitarfélagið Skagaströnd

536

1.073.000

8,5%

Húnavatnshreppur

461

925.000

7,3%

Skagabyggð

101

204.000

1,6%

Samtals

6.289

12.600.000

100,00%

 

4. gr.

Verkefni byggðasamlagsins eru móttaka og förgun úrgangs fyrir sveitarfélög og fyrirtæki á Norðurlandi annað hvort með urðun og/eða brennslu eftir því sem eigendur ákveða og forsendur eru til.

Í því felst m.a.:

  • Samningar um landnotkun fyrir starfsemi byggðasamlagsins.
  • Öflun heimilda til starfseminnar samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda um förgun sorps og eyðingu.
  • Samningar við verktaka og aðra haghafa um framkvæmd þeirra verkþátta sem ráðist er í til að Norðurá bs. geti sinnt hlutverki sínu.
  • Samskipti við Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, sveitarstjórnir, skipulagsnefndir, umhverfisnefndir og aðra opinbera aðila eftir því hvaða verkefnum er unnið að við undirbúning og rekstur starfseminnar.
  • Samskipti við verktaka og fyrirtæki sem annast söfnun og flutning á úrgangi til förgunar eða endurvinnslu.  

Byggðasamlagið skal auk þess stuðla að aukinni endurnýtingu og minnkun úrgangs í samstarfi við sveitarfélög á starfssvæðinu og taka þátt í að kynna leiðir til þess fyrir almenningi og fyrirtækjum.

Aðalfundur eða eigendafundur getur falið byggðasamlaginu að taka þátt í vinnu við gerð svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs samkvæmt 9. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003 með síðari breytingum.

 

II. KAFLI Stofnfé, rekstur, ábyrgð o.fl.

 

5. gr.

Stofnfé byggðasamlagsins er 12,6 milljónir króna og skiptist skv hlutdeild hvers sveitarfélags sbr 3. gr. Verði þörf á aukningu stofnfjár skal stjórnin gera tillögur þar að lútandi til sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna. Eigendur leggja stofnfé fram í hlutfalli við íbúatölu þeirra miðað við 1. janúar greiðsluárs.

 

6. gr.

Sveitarfélög þau, sem aðild eiga að byggðasamlaginu bera einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum þess gagnvart kröfuhöfum. Innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúafjölda þess árs sem ábyrgð fellur.

 

7. gr.

Rekstrartekjur byggðasamlagsins skulu standa undir kostnaði við reksturinn og skal gjaldskrá miðast við það. Helstu tekjuliðir eru:  

  • Gjöld fyrir móttöku og eyðingu sorps, spilliefna og annarra efna sem gjaldskrá kveður á um.
  • Söluverð efna úr sorpi til endurvinnslu, svo og orka sem unnin er úr sorpi eftir því sem hagkvæmt þykir.
  • Þóknun fyrir þjónustu eða umsjón með einstökum verkefnum sem byggðasamlaginu verða falin.

 

III. KAFLI Kosning stjórnar, hlutverk o.fl.

 

8. gr.

Stjórn byggðasamlagsins er skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Skal stjórnin kosin af fulltrúum aðildarsveitarfélaganna á aðalfundi ár hvert. Stjórn byggðasamlagsins skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Gert er ráð fyrir að stjórnarmenn skiptist þannig að tveir fulltrúar komi úr Skagafirði en einn úr A-Hún. Sama gildi um varamenn í stjórn.

Í stjórn geta átt sæti áheyrnarfulltrúar samkvæmt ákvörðun aðalfundar. Áheyrnarfulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum stjórnar.

 

9. gr.

Stjórnin heldur fundi svo oft sem þurfa þykir og eigi færri en fjóra á ári. Skylt er að halda fund ef tveir stjórnarmanna æskja þess. Um boðun funda, fundarsköp og ályktunarhæfi stjórnar gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, eftir því sem við á. Sama er um réttindi og skyldur stjórnarmanna, sbr. IV. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Heimilt er að halda stjórnarfundi sem fjarfundi, um síma eða netsamband.

 

10. gr.

Formaður stjórnar stýrir fundum hennar. Stjórnin kýs fundarritara úr sínum hópi eða ræður sérstakan fundarritara. Formaður stjórnar skal sjá um að fundargerðir séu skipulega færðar, m.a. að þar séu skráð öll framkomin mál og hvaða afgreiðslu þau hljóta. Heimilt er að skrá fundargerðir rafrænt sbr. auglýsingu um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna 15. janúar 2013. Fundargerðir stjórnar skulu sendar aðildarsveitarfélögum ásamt fjárhagsáætlun og ársreikningum.


 

 

11. gr.

Hlutverk stjórnar byggðasamlagsins er:
a)       Að ákveða hvernig fjármála- og framkvæmdastjórn fyrir byggðasamlagið er háttað.
b)       Að sjá um allan daglegan rekstur.
c)       Að hafa stöðugt og ítarlegt eftirlit með öllum rekstri byggðasamlagsins, sjá um að fylgt sé lögum og reglugerðum, sem starfsemin heyrir undir og sjá um að gerðar séu áætlanir um rekstur félagsins til skemmri og lengri tíma. Sérstaklega skal stjórnin gæta þess að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og fjármunameðferð og skal hún gera tillögur til eigenda um þau framtíðarmarkmið, sem stefnt er að á hverjum tíma.
d)       Gerð fjárhagsáætlunar. Fjárhagsáætlun skal skipta annarsvegar í rekstraráætlun, þar sem tilgreind eru áætluð rekstrarútgjöld og rekstrartekjur og hinsvegar áætlun um eignabreytingar, þar sem tilgreindar eru allar áætlaðar eignabreytingar, s.s. fjárfestingar, afborganir og lántökur. Stjórn byggðasamlagsins er ekki heimilt að gera fjárskuldbindingar umfram árlegar rekstrartekjur nema með samþykki aðal- eða eigendafundar.

e)       Stjórn byggðasamlagsins skal fyrir 1. apríl ár hvert leggja fram skýrslu stjórnar, endurskoðaða ársreikninga byggðasamlagsins, og gera grein fyrir fjárhagslegri stöðu og framkvæmdaáætlunum.
f)        Að koma fram fyrir hönd byggðasamlagsins gagnvart dómstólum og stjórnvöldum.
g)       Að gera tillögur til eigenda um breytingar á stofnfé.
h)       Að ákveða gjaldskrá fyrir þjónustu byggðasamlagsins.

Stjórn byggðasamlagsins hefur heimild til að gera samninga við einstök aðildarsveitarfélög um staka rekstrarþætti ss. umsjón bókhalds og eftirlit með umhverfisþáttum en leita skal heimildar aðal- eða eigendafundar ef vilji er til að fela einstökum sveitarfélögum meginverkefni byggðasamlagsins að miklu eða öllu leyti.

 

12. gr.

Stjórn byggðasamlagsins er heimilt að gera samninga við verktaka fyrir hönd byggðasamlagsins um þá framkvæmdaþætti sem samþykkt hefur verið að ráðast í að undangengu útboði eða forvali eftir stærð og umfangi verkefnis. Allar meiriháttar framkvæmdir og fjárhagsskuldbindingar skal þó bera undir aðal- eða eigendafund byggðasamlagsins. Stjórn félagsins getur ekki skuldbundið aðildarsveitarfélögin umfram það sem aðal- eða eigendafundur ákveður.

 

IV. Aðalfundir, eigendafundir

 

13. gr.

Aðalfund sem fulltrúar aðildarsveitarfélaganna eru boðaðir á skal halda fyrir lok apríl ár hvert og skal boða til hans með að minnst viku fyrirvara með sannanlegum hætti. Fundurinn er löglegur ef mætt er fyrir meira en helming atkvæðavægis. Á fundinum skal kjósa stjórn byggðasamlagsins og endurskoðanda, leggja fram skýrslu stjórnar, ársreikning næstliðins árs og gera grein fyrir starfsáætlun og fjárhagsáætlun svo og öðrum áætlunum sem stjórn byggðasamlagsins ákveður. Með atkvæði á aðalfundi fara framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaganna eða sá sem hefur umboð viðkomandi sveitarstjórnar. Einungis einn fulltrúi getur farið með atkvæði frá hverri sveitarstjórn. Atkvæðavægi skiptist skv. íbúatölu í upphafi árs aðalfundar. Heimilt er að halda aðalfundi sem fjarfundi með netsambandi þar sem fundarmenn hafa færi á gagnvirkum samskiptum. Aðalfundur getur ályktað um öll málefni byggðasamlagsins en getur þó ekki skuldbundið aðildarsveitarfélögin nema með formlegu samþykki viðkomandi sveitarstjórna.

Komi til fjárfestinga eða verkefna sem eru skuldbindandi eða á einhvern hátt umfram umboð stjórnar og geta ekki beðið ákvörðunar næsta aðalfundar skal boða til fundar með fulltrúum aðildarsveitarfélagnna, eigendarfundar. Skal til hans boðað með viku fyrirvara með sannanlegum hættir og á honum gilda sömu reglur um lögmæti og atkvæðavægi og á aðalfundi. Samþykki ¾ hluta atkvæðavægis þarf til að ákvarðanir/ tillögur stjórnar um fjárfestingar umfram það sem getið er í fjárhagsáætlun, ólögbundin útgjöld eða meiri háttar skuldbindingar öðlist gildi. Ekki er þó hægt að skuldbinda aðildarsveitarfélögin nema með formlegu samþykki viðkomandi sveitarstjórna.

Ársreikningar byggðasamlagsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda, sem aðalfundur samþykkir.


 

 

V. KAFLI Gildistaka, endurskoðun samþykkta o.fl.

 

14. gr.

Samþykktir þessar skulu endurskoðaðar verði þær breytingar á verkefnum byggðasamlagsins eða lögum og reglugerðum sem byggt er á að það kalli á endurskoðun eða ef meirihluti eigenda krefst þess. Tillögur um breytingar á samþykktum skulu lagðar fyrir aðalfund og staðfestast af sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga að undangengnum tveimur umræðum. Um endurskoðun samþykktanna gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Gangi sveitarfélag úr byggðasamlaginu eða verði það lagt niður gilda ákvæði 95. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Við mat á eignarhlut skal jafnframt meta og framvirðisreikna skuldbindingu sem kann að felast í samningum eða ákvæðum laga og reglugerða um urðun og eyðingu sorps.

Samþykktir þessar öðlast gildi þegar þær hafa verið staðfestar af sveitarstjórnum og hlotið samþykki sveitarstjórnarráðherra og koma í stað stofnsamnings sem samþykktur var af aðildarsveitarfélögum á stofnfundi á Blönduósi 5. desember 2005 og endurkoðaður á ársfundi í Varmahlíð, 28. mars 2007.

 

Samþykkt á auka-aðalfundi Norðurár bs, 11. nóvemer 2020

 

 

Staðfesting sveitarstjórna:

 

_________________________________

Sveitarfélagið Skagafjörður (Samþ.16.12.2020)

 

 

_________________________________

Akrahreppur

(Samþ. 4.02.2021)

 

 

_________________________________

Blönduósbær

(Samþ. 12.01.2021)

 

 

 

 

_________________________________

Sveitarfélagið Skagaströnd (Samþ. 27.01.2021)

 

 

_________________________________

Húnavatnshreppur

(Samþ. 17.12.2020)

 

 

_________________________________

Skagabyggð

(Samþ. 15.12.2021)