Stærð og gerð urðunarstaðar

Ýmislegt um urðunarstaðinn

Lóð urðunarsvæðisins er samtals 43,2 ha. Samtals verða um 6 ha teknir undir urðunarhólf í fjórum áföngum og gert ráð fyrir að síðasta hluta stækkunar urðunarhólfsins verði lokið fyrir árslok 2023. Reiknað er með að hægt verði að taka á móti úrgangi til urðunar til ársins 2038 en þá hafi aðrar lausnir verið fundnar og lokun og frágangur hólfs og umhverfis þess taki við. Hólfið er 20 m djúpt og hliðar þess klæddar innan með sérstökum þéttidúk sem hindrar að sigvatn úr úrgangi berist út í grunnvatn. Sérstakt lagnakerfi er hins vegar í botni hólfsins sem safnar saman því sigvatni sem kemur af úrganginum og leiðir í sýnatökubrunna og inn í hreinsivirki. Reglubundin sýnataka er úr hreinsivirkinu og fylgst með hvort mengunargildi fara yfir leyfileg mörk. 

Í rotnandi úrgangi myndast metangas sem er mjög mengandi lofttegund og er því safnað saman með lagnakerfi í þeim hluta hólfsins sem er fullfrágengin. Metangasinu er síðan brennt en leitað er leiða til að nýta það til gagns. 

Þjónustuhús er um 65 m2 og þjónustuplan við það 1.200 m2. Bílvog er 18,3 m og miðast við allt að 100 tonn.