Ársyfirlit 2022

Á árinu 2022 var tekið á móti 21.732 tonnum af úrgangi í urðunarstaðnum Stekkjarvík en á árinu 2021 var tekið á móti 20.441 tonni. Úrgangsmagn sem barst til urðunar jókst því milli ára semn nemur 1.345 tonnum sem var meðal annars vegna þess að ketilryk og kolasalli fór að berast á ný frá PCC BakkiSilicon á Húsavík. Frá þeim voru urðuð tæp 650 tonn og sömuleiðs varð aukning í úrgangstimbri sem nam svipuðu magni. Samanlagt voru heimilisúrgangur, fyrirtækjaúrgangur og húsgögn og grófur timburúrgangur svipuð og árið áður, en samanlagt voru þessir flokkar 14.421 tonn.

Á milli ára eru ætíð nokkrar innbyrðis breytingar á samsetningu úrgangs sem kemur til urðunar. Ef hins vegar er tekið meðaltal sl. áranna 2018-2022 kemur í ljós að úrgangur frá heimilum og sveitarfélögum er um 31% og úrgangur frá fyrirtækjum tæp 35%. Sláturúrgangur og dýrahræ eru um 17% og timburúrgangur og byggingarefni um 10%. Annar úrgangur er umtalsvert minna hlutfall og yfirleitt um eða undir 1% af heild.

Þjónustusvæði Norðurár bs. er orðið nánast allt Norðurland og nær frá Húnaþingi vestra og austur í Norðurþing. Samtals hafði í árslok 2022 verið tekið við um 227 þúsund tonnum í Stekkjarvík frá því urðun hófst þar 2011. Söfnun og brennsla á metangasi upp úr urðunarhólfinu hófst haustið 2018 og hefur gasi verið brennt þar síðan. Á árinu var brennt samtals um 130 þús. Nm3 af metangasi sem er svipað magn og undanfarin ár.

Engar framkvæmdir eða fjárfestingar voru við urðunarhólf eða fasteignir á árinu en unnið er að hönnun og áætlun um stækkun urðunarhólfsins sem gert er ráð fyrir að ráðist verði í á árunum 2023-2024 þar sem núverandi urðunarhólf verður fullnýtt um árslok 2024.

Starfsmenn urðunarstaðarins eru almennt þrír og annast alla móttöku, skráningu og frágang þess úrgangs sem kom til urðunar auk viðhalds á vélum og tækjum. Meðalfjöldi starfsmanna umreiknaður í heilsárstörf var 3,68. Verkstjóri í Stekkjarvík var í veikindaleyfi frá miðju ári 2022 og nýr verkstjóri ráðinn í tímabundið starf frá 1. september til áramótia 2022/2023. Sá tímabundni samningur var svo framlengdur út árið 2023.

 

Rekstrartekjur Norðurár bs árið 2022 námu 209 milljónum og hækkuðu um 17,3 milljónir milli ára eða um 9%. Rekstrargjöld námu 86 milljónum, afskriftir voru 40,5 milljónir og fjármagnsliðir námu 31 milljón. Hagnaður ársins varð því 51,5 milljónir sem var ráðstafað annars vegar til framlags í svokallaðan „lokunarsjóð“ sem er ætlað það hlutverk að kosta frágang svæðsins þegar urðun lýkur og hins vegar í sjóð til fjárfestinga á vegum félagsins.

 

Í stjórn félagsins voru; Magnús B. Jónsson, Einar E. Einarsson, Sveinn Úlfarsson og Snorri Finnlaugsson sem áheyrnarfulltrúi sveitarfélaga við Eyjafjörð